Verðlaunaafhending Hjólað í vinnuna 2022

27. maí 2022

Verðlaunaafhending Hjólað í vinnuna 2022 fór fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í hádeginu í dag, 27. maí. Hjólað í vinnuna er því formlega lokið í ár. Fyrr í vikunni lauk skráningum ferða og þar með voru úrslitin ljós.

Verðlaun voru veitt fyrir þrjá efstu vinnustaðina í öllum flokkum fyrir hlutfall þátttökudaga. Í kílómetrakeppninni var þremur efstu liðunum veitt verðlaun fyrir bæði heildarfjölda kílómetra og hlutfall kílómetra miðað við fjölda starfsmanna. Alla vinnustaði í verðlaunasæti má finna hér á vefsíðu verkefnisins.

Í ár voru þátttakendur alls 5.319. Vinnustaðir voru alls 380 sem skráðu 931 lið til keppni. Skráðir kílómetrar voru 371.268 km sem jafngildir um 277 hringjum í kringum landið.

Á myndinni hér til hægri má sjá Andra Stefánsson, framkvæmdarstjóra ÍSÍ og Stefán Stefánsson, starfsmann Sabre Iceland, en þess má geta að Sabre Iceland hefur 10 sinnum í röð unnið 1. sæti í hlutfalli daga, en þau hafa unnið 1. sætið 14 sinnum í heildina. Þetta er magnaður árangur!

Hjólað í vinnuna 2022
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stóð í tuttugasta sinn fyrir verkefninu Hjólað í vinnuna, heilbrigðri vinnustaðakeppni um allt land, dagana 4.-24. maí. Fyrir mörgum er verkefnið vorboðinn ljúfi og er verkefnið orðið stór þáttur í fyrirtækjamenningunni á mörgum stöðum. Landsmenn hafa tekið verkefninu mjög vel og hefur hjólaumferð aukist verulega síðan verkefnið fór fyrst af stað.
Samstarfsaðilar Hjólað í vinnuna eru Örninn, Rás2, Advania og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn

Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að nota virkan ferðamáta.

Nánari upplýsingar um Hjólað í vinnuna er að finna á www.hjoladivinnuna.is

Starfsfólk ÍSÍ þakkar öllum þátttakendum fyrir keppnina í ár og óskar öllum vinningshöfum innilega til hamingju!
Þið getið öll klappað ykkur á bakið, þið hafið öll verið frábærar fyrirmyndir í hreyfingu og umhverfisvænum samgöngum.

Á myndunum með fréttinni má sjá hópmynd af verðlaunahöfum í 1. - 3. sæti í hlutafalli daga og kílómetrakeppninni auk verðlaunahafa í skráningar-, myndar- og liðsstjóraleik. Fleiri myndir af verðlaunaafhendingu er hægt að finna hér á myndasíðu ÍSÍ