Hjólað í vinnuna 2018 formlega hafið

02. maí 2018

Hjólað í vinnuna var ræst í 16.sinn í morgun í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Alma Dagbjört Möller, landlæknir og Frímann Gunnarsson, þáttastjórnandi með meiru fluttu hvatningarávörp áður en þau hjóluðu verkefnið af stað ásamt öðrum gestum. Myndir og myndband frá setningarhátíðinni í morgun má sjá á Facebook-síðu Hjólað í vinnuna. 

Þátttakendum er bent á að hægt er að nota Strava til að halda utan um sínar ferðir og vegalengdir og hlaða upplýsingunum beint inn í skráningarkerfið. Þá er vert að benda á að hjólaðar vegalengdir til og frá vinnu er ekki eingöngu það sem má skrá í keppninni heldur telst allur virkur ferðamáti með eins og ganga, hlaup, hjólabretti, línuskautar og strætó.

Við minnum alla þátttakendur á skráningarleikinn og liðstjóraleikinn þar sem reiðhjólaverslunin Örninn gefur góða vinninga og myndaleikinn í boði Nutcase á Íslandi. Hér má finna allt um leikina.