Hjólað í vinnuna 2018 hefst eftir eina viku!

25. apríl 2018

Nú er nákvæmlega ein vika í að Hjólað í vinnuna 2018 hefjist en keppnin stendur frá 2. – 22. maí nk. Skráning er hafin og fer vel af stað. Hægt er að skrá sig til leiks hér og með því tekur þú einnig þátt í skráningarleik Hjólað í vinnuna. Vinningshafar í skráningarleiknum verða dregnir út á Bylgjunni. Liðstjórar geta einnig unnið góða vinninga frá Erninum í liðstjóraleiknum og verða allir vinningshafar tilkynntir hér á heimasíðunni.

Veðurguðirnir bjóða vonandi upp á heppilegt hjólaveður og því um að gera að fylgjast með veðurspám. Því er um að gera að hafa reiðfákinn og allan hjólabúnað í toppstandi þegar keppnin rúllar af stað. Við hvetjum alla til að deila myndum með okkur á Facebook og Instagram með #hjoladivinnuna og eiga möguleika á að vinna flotta hjálma í myndaleiknum okkar í boði Nutcase á Íslandi. Dregið verður úr öllum myndasmiðum á Bylgjunni og þá verður besta myndin tilkynnt í lokin.

Setningarhátíðin verður miðvikudaginn 2. maí kl. 8:30 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal. Við hvetjum alla til að hjóla við og fá sér góða hressingu í tilefni dagsins.