Hjólateljari við Suðurlandsbraut

24. júní 2013

Reykjavíkurborg hefur sett upp hjólateljara við Suðurlandsbraut. Mælirinn var settur upp þann 19. júní síðastliðinn og mælir fjölda hjólreiðamanna sem fara stíginn daglega og tekur einnig saman heildartölu frá því að hann var settur upp.

Finna má hjólateljara í mörgum Evrópulöndum, en þar á meðal má nefna Norðurlöndin, Írland, England, Holland og Belgíu. Þegar þetta er skrifað höfðu 2.319 hjólreiðamenn lagt leið sína um Suðurlandsbraut frá 19. júní, eða um 450 á dag. 

Samkvæmt vef Reykjavíkurborgar hefur fjöldi hjólreiðamanna í borginni þrefaldast á síðustu 4 árum. Komið verður til móts við þá fjölgun með ákveðnum þáttum í fyrirhuguðu aðalskipulagi, þar sem hjólastígar verða lagðir í Borgartúni, Sæmundargötu, Hverfisgötu, á Hofsvallagötu og Úlfarsfellsveg , brýr yfir Elliðaárósa, Elliðaárdal við Breiðholtsbraut og við Norðlingaholt ofl. Auk þess verða tekin upp sérstök umferðarljós fyrir hjól en reynsluútgáfu af þeim má einnig finna á Suðurlandsbraut.

Hægt er að fylgjast með hjólateljaranum hér.