Átakið Hjólað í vinnuna fer fram dagana 8. - 28. maí 2023
Markmið verkefnisins er að huga að daglegri hreyfingu og vekja í leiðinni athygli á virkum ferðamáta því hjólreiðar eru bæði virkur og umhverfisvænn ferðamáti. Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland (ÍSÍ) hvetur landsmenn til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu í þessar þrjár vikur og ekki síst taka þátt í þessu skemmtilega verkefni sem Hjólað í vinnuna er.

Í ár verður hægt að hjóla til góðs
Umhverfisvernd er ofarlega á baugi í samfélaginu og er mikilvægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda m.a. með því að nýta virkan ferðamáta og hvíla bílinn. Að hjóla í vinnuna eykur daglega hreyfingu, hjólreiðar eru hagkvæmar og góðar fyrir pyngjuna og samgöngumátinn er umhverfisvænn.

ÍSÍ og UNICEF hafa tekið höndum saman í verkefninu Hjólað í vinnuna þar sem gildi og hugsjón beggja sameinast í að efla einstaklinga og fyrirtæki til heilsueflandi þátttöku fyrir sig, Ísland og heiminn allan. Með þátttöku í Hjólað í vinnuna geta fyrirtæki nú heitið á sitt starfsfólk og stutt þannig við Loftlagssjóð UNICEF. Loftlagssjóður styrkir meðal annars menntun og fræðslu fyrir börn og ungt fólk varðandi loftlagsáhrif, nýsköpun á sjálfbærum og umhverfisvænum lausnum fyrir heilbrigðis- og menntakerfi og styrkir innviði samfélaga til að auka viðnám við loftlagsbreytingum.Opnuð hefur verið fjáröflunarsíðu inná www.unicef.is.
Starfsfólk UNICEF mun hafa samband við fyrirtæki sem hafa skráð fyrirtæki til keppni.

Hvernig virkar áheitahlutinn?
Eftir að fyrirtæki hefur skráð sig í Hjólað í vinnuna er það ábyrgðaraðili innan fyrirtækis sem tekur ákvörðun um það hvort fyrirtækið ætlar að vera með í áheitahlutanum og heita á sitt starfsfólk. Til þess að leggja UNICEF lið eru fyrirtæki hvött til að heita á sitt starfsfólk og greiða upphæð áheita til UNICEF í lok átaksins. Allt fjármagn sem safnast þar inn er merkt Loftlagssjóði UNICEF. UNICEF á Íslandi mun hafa samband við fyrirtæki sem skrá sig til leiks og bjóða þeim að skrá áheit á sitt/sín lið. Jafnframt verður farið yfir það hvernig áheitin skila sér á vettvangi og hvernig best er að hvetja starfsfólk til þátttöku. Hægt er að nálgast upplýsingar og hafa samband við UNICEF á heimasíðu UNICEF